Mikið er ég ánægð að sjá í Fréttablaðinu í dag að tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs væru eftirfarandi tvær bækur:

Afleggjarinn eftir Auði A. Ólafsdóttur

og.

Blysfarir eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

Þetta voru einmitt þær tvær bækur sem stóðu upp úr útgáfunni á síðasta ári - að mínu viti.

Hér bæti ég inn stuttum rýnum mínum í þessar skræður sem birtist í Mogganum í fyrra.
Vessskú:

Að fæða sína goðsögu

Blysfarir eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur. JPV, 2007, 147 bls.

Sé fyrir mér höfuð Orfeusar aðskilið frá búk á leið niður á syngjandi söngva um sína Evridísi í Hadesarheimum þegar stígið er inn í Blysfarir, ljóðasögu eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur. Kannski hefur hverfulleikinn og endurtekningarmáttur hans slík áhrif að með hverjum slætti hjartans fæðist ný nútíma goðsaga, ný Kristjana F og Detlef. Aðdráttarafl klisjunnar er magnað ef að er gáð. Ljóðmælandi dregur lesanda með í minningarferð, blysför. Lýst er sambandi tveggja einstaklinga og staðsetningin er kofi, Þýskaland, lest, laut, landslag - en fyrst og fremst þessi staður orða. Í upphafi ljóðasögunnar er nótt og hún býður honum hjálp sína. Orðin eru steinrunnin, kaldranaleg, jafnvel tilgerðarleg og líkt og ljóðmælandi sé ekki viss um að ætlunin sé að stinga í samband. Lesandi er tældur með í för á lúmskan hátt. Það er ekki fyrr en skyndilega í miðri sögu að klakinn fer að bráðna af orðunum og á bak við reynist hold og blóð sem rennur, gamalt og nýtt: „eins og / opnist á þér vinstri upphandleggurinn /grannur en kjötmikill/ og út brjótist bláar fegurðir / og haglél / og út streymi skammtafræðireglur / um innri meiningu allra hluta / eins og titri tvær geirvörtur / þegar ég bít þig í hinn / handlegginn / grannan en blóðmikinn / í leit að miklu stærri spurninum / að taka með mér heim" (88). Þetta er fjórða ljóðabók Sigurbjargar og hér finnur hún sinn slagkraft, sinn söng, - kannski sinn fagurfræðilega dreka. En í gegnum ljóðin birtist reglulega hvítur dreki sem er í senn fallegur, hættulegur og sorglegur, brúar samband skáldskapar og dauða: „nei, / drekinn er ekki dauðinn heldur slitrurnar / úr lífinu eins og það hefði getað orðið, segir hann / ef hvað, spyr ég af gangstéttinni / ef þú veist, segir hann með störu en einhver hefur tekið / hljóðið af" (90). Í lokin er ljóðmælandi einn eftir, hið nauðsynlega hvarf hefur átt sér stað og eftir situr svört fylgja sem nærir minningar og innri átök. Kannski hefur hann sem hún skrifar um, horfið aftur niður til Hadesarheima líkt og Evridís þegar Orfeus lítur rétt sem snöggvast á hana á leið þeirra upp. Hún veit að hann mun leysast upp áður en sagan er úti, og það er í gegnum ljóðin eitthvað glóandi að molna. Orðin og líkaminn. Áhugaleysi lesanda í upphafi breytist svo um munar í gegnum orðaskóg og í lokin nær ljóðasagan hátindi í pönksálmi þar sem kallað er: komdu samt. Ljóðin minna að sumu leyti á ljóðin í Öll fallegu orðin eftir Lindu Vilhjálmsdóttur hvað varðar form, takt og tilfinningu, og það er ekki leiðum að líkjast. Blysfarir er skáldskapur sem kemur lesanda að óvörum, stekkur á hann út úr myrku skúmaskoti. Eftir stendur sterk skáldskaparreynsla.
/sb

Frá líkamlegum rósum -

Afleggjarinn eftir Auði A. Ólafsdóttur. Salka, 2007, 286 bls.

Ungur maður heldur af stað í ferð með afleggjara af fjólurauðri áttablaðarós vafna inn í minningargreinar dagblaða. Hann hefur misst móður sína sem hann var mjög náinn, en á lífi á hann aldraðan föður og einhverfan tvíburabróður. Jafnframt er hann nýorðinn faðir eftir hálfrar nætur gaman. Hann heldur af stað og feigð loðir við hvert fótmál. Hugsanir hans sækja í dauða, líkama og rósir. För hans er heitið í forláta rósargarð sem er staðsettur í afskekktu munkaklaustri. Hann kynnist munkinum Tómasi sem gefur honum staðgóð ráð við hugarvíli af ólíkum toga, og bendir honum jafnan á rétta kvikmynd í hvert sinn til að horfa á sem gæti svarað síkvikum spurningum lífsins. Sagan er fínlega ofin slóð frá dauða til upprisu. Á slóðinni má sjá trúarleg stef strjúkast við lesanda líkt og silkimjúk laufblöð og því lengra sem haldið er því dýpri rætur sögunnar greipast um lesandann. Efnið sameinar hold og anda og snýr að leit manneskjunnar að rótum í sjálfum sér. Ástin er því allt umlykjandi afl í textanum sem er fallega myndrænn og minnir á rósarrunna í vexti. Líf unga mannsins Arnljótar umbreytist eftir því sem sögunni vindur fram og líkir hann sjálfur ferð sinni á fallegan hátt við tilfallandi félagsskap sem rekur á fjörur í regnvotum skógi. (118)
Auður Ólafsdóttir er skáldkona sem hefur mjög næmt auga fyrir umhverfi innra sem ytra. Líkt og í fyrri sögu hennar Rigning í nóvember birtist tilfinningalífið í landslagi og áferð. Sagan sameinar hversdagsleika sem við öll þekkjum við leitandi þrá. Lesandi er á sama tíma staddur í kunnuglegum heimi en jafnframt er stígið inn í táknheim skáldskapar. Hér er verið að baksa við að elda mat, horfa á bíómyndir, rækta rósir, skipta á bleyjum, elskast í nótt og degi og kíkja í messu. Kakósúpa með rjóma, kálfakjöt í rauðvinssósu, matseldin mallar við tilfinningar sem rífna út úr líkamanum.
„Þeir sem rata inn í líf manna stutta stund, geta haft meiri þýðingu en þeir sem sitja þar fastir árum saman, ég hef reynslu af því að tilviljanir geta verið lúmskar og örlagaríkar.“ (116) Svo segir Arnljótur á einum stað og þessi orð mætti yfirfæra á lestur af sögunni Afleggjarinn. Frásagnarmátinn er lágstemmdur og vinnur sig á hljóðlegan hátt inn í hug lesanda og sest þar að eftir að lestri lýkur. Það er eitthvað frelsandi við efnistökin sem fægja burt staðalmyndir kynjanna. Sagan er þess eðlis að ekki er annað hægt en að mæla með að hún sé lesin. Hér er verið að segja venjulega hversdagssögu, þroskasögu sem við kannski þekkjum en undirtónn hennar hverfist um þá mikilvægu þrá sem leiðir manneskjuna áfram. Afleggjarinn er óumræðanlega fallegur skáldskapur sem hreiðrar um sig í huga lesanda líkt og fræ í blautri mold.
/sb

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal