um tíma bjó ég í 100 ára gömlu húsi í rónagötu. þar var mjög friðsælt og nágranna- konan um sextugt alltaf útí garði á brjóstunum sínum fallegu. man að þau voru nokkuð stór brjóstin á henni og löfðu þunglamalega niður að maga en sjálf var hún svo létt í spori þegar hún trillaði sér fram og aftur á blettinum sínum með litla sláttuvél. ég hafði gaman að þessu því ég er svoddan hippi en sambýlingi mínum fannst þetta ekki skemmtilegt landslag fyrir augum sínum yfir morgunkaffibollanum eða hverju öðru. hann var samt jafnvel meiri hippi en ég ef ég spái í það. hann spilaði fallega á gítar og var vísindamaður með þykk gleraugu. jafnframt var hann mikill sóði og parkeraði til að mynda útiskónum sínum upp á eldhúsborð og snýtti sér í viskustykkin. ekki segja neinum. en ljúfur sem lamb og klókari en margt í þessari veröld. þetta var ekki sagan sem ég ætlaði að segja. ég var að hugsa um sænska söngva og það leiðir hugann að cornelius. því í þessu ágæta húsi okkar hljómaði cornelius oft og iðulega og sænskan svo kunnugleg, jú einmitt hugsaði ég með mér þegar hann raulaði fyrir mig, sumir ganga í gatslitnum skóm og eitthvað. en þegar sambýlingurinn góði fór að spyrja mig hvort ég skildi ekki og ræða lýrikina þá virtist ég alltaf vera að misskilja lykilorðið eða setninguna og snéri þessu öllu saman við í mína innri þágu. eins og við gerum hvort sem er meira og minna. en hvað um það. ég fékk þessa sömu tilfinningu í gær þegar lisa ekdahl með sinni dillandi sjarma röddu sagði sögu um apa í suður afríku og ég brosti og kinkaði kolli því til samþykkis að ég skildi hana að þá læddist að mér þankinn um tótal misskilning. en það fallega er að það gerir stundum ekkert til. þetta skilar sér allt saman á einhvern hátt og það beint inn í hjartastað. jú hún söng auðvitað um himininn og hafið. þegar hjarta hennar var selt og stolti hennar rænt. og ég dillaði mér og kinkaði kolli með reynsluna að vopni. hugrenningar eru óstöðvandi. stundum eru þeir bara til ama en þó svo fallega skrikkjóttir í mótun sinni.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal