Í gær fór ég á fyrirlesturinn: Can art still be subversive? - ásamt öðrum bæjarins bestu.
Já hvernig ætti maður að útleggja það, getur listin enn rifið niður, eða stuðað, haft áhrif, breytt....Held að það sé inntakið. Spurningin um það hvað listin færi okkur og hvert hún ferji manneskjuna innan þunns lags veruleika og drauma. Hverjir eru þessir möguleikar. Ég hafði reglulega gaman af þessari tölu hans Slavoj Zizek. Satt að segja bjóst ég ekkert frekar við því að ná tengingu þarna en fannst hann verulega inspírerandi og skemmtilegur á að hlýða. Tafsandi skýr, klórandi sér í hugsunum og húð. Trúlaus Marxiskur Lacanisti. En hann velti fyrir sér sálgreiningu í dag og telur hana ekki dauða, búna, bless. Ó nei.
Hann hlýtur að hafa eytt ævi sinni í togstreitu guðleysis og máttar guðs. En hann sagði sig trúleysingja. Talaði um guð handan við sjálfan guð. (Samt er alltaf svo óþægilegt að halda sjálfi og guði saman. Væri gott að geta aðskilið sjálf, kyn, guð. Allt þetta þrennt.) Það er kraftur í þeirri hugsun að veruleikinn sé ekki tilbúinn, þ.e. ekki full skapaður. Hann nær ákveðið langt og síðan eru það eyðurnar og hið ógerða, ósagða sem á eftir að fylla inn í. Opinn veruleiki. Nú má vel vera að ég sé með eigin túlkanir og skilning á þessu. En þetta blasti á þann hátt fyrir mér. Sköpun veruleikans á sér enn stað og hann er ófullgerður. Listin er meiri veruleiki en veruleikinn samkvæmt honum, flótti inn í listina færir þér ekki blekkingu heldur frekari veruleika, og það á eins við um drauma hvers manns. Við þurfum að sigla á dýpin.... og kannski líkar okkur ekki það sem við sjáum, finnum. Augnablik sannleikans er jafnvel augnablik hryllings.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal