Og já svo ég haldi áfram dagbókar skrásetningu að þá fór ég í gær á Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu.
Til að byrja með að þá gengur maður inn í mjög skemmtilegt rými og er þessi leikmynd með þeim betri sem ég hef séð lengi. Hún er blanda af náttúru og ónáttúru. Fantasíu og veruleika. Sýningin mynti mig ótrúlega mikið á margar sýningar Leiksmiðju Reykjavíkur. Það var bæði mjög skemmtilegt en einnig óþægilegt á stundum. Rýmið átti sinn þátt í því, sem og leikarahópurinn og fötin sem þau voru í. Já ég þekkti element úr "Frá kyrrstöðu til hagvaxtar" sem var sýning sýnd í litlu rými í þá Frú Emilíu leikhúsi, en nú Loftkastalanum. Allur textinn var úr Morgunblaðinu einn sunnudag í mars 1994. Jafnframt var eitthvað sem ég þekkti úr Streymi, sem var sýning á vegum fleiri aðila á vegum Listahátíðar í Hafnarfirði, sett upp í Straumi sumarið 1993. Þar var álíka endir þar sem opnuð var stór skemmuhurð út í frelsið og leikararnir hverfa þangað út. En þetta þótt mér bara nokkuð skemmtilegt og má vera að það sé bara tilviljun sem skapast af ákveðinni leiksmiðjuvinnu hópsins, sem og hráu ferli.
En já, mér finnst gaman að það sé nú að rísa pólitískt leikhús hér og er efniviðurinn óskaplega aktuel, sér í lagi þar sem við vorum stödd í rými í Hafnarfirði og í dag er kosning sem að hlýtur að fá fólk til að titra og skjálfa.
Að mörgu leyti fór talandinn og tónninn í leikurunum í taugarnar á mér. Léttleikandi-leikhús-gaman-tónn með veruleikatón predikarans undirliggjandi. En málstaðurinn er þvílíkt þarfur og því var ég nú mjög sátt. Þarna hefði mátt vinna betur úr hugmyndum eins og gert hefur verið þegar kemur að leikmyndinni í allri sinni dýrð. Ég hef trú á að æfingaferlið hefði mátt vera mun lengra og dýpra, en það er þó svo mikilvægt að þessar sýningar eigi sér stað ákkkúrat núna. Jafnframt hefði ég haft sýninguna hraðari, styttri og án hlés. Sprauta í æð og treysta meira á áhorfandann. Tilfinninga- og þekkingarlega sem og þegar kemur að skoðunum. Það þarf ekki að neon-lita allar upplýsingar og prédika á þann hátt þegar að leikhúsi kemur. Leikhúslistin getur framkallað áhrifin án þess að þeim sé þrýst fram af örvæntingu. Kannski er þetta algengt í leikhúsi í dag - það vantar traust til áhorfandans. En þrátt fyrir þessar aðfinnslur þá segir ég bara húrra og hvet alla til að fara inn í veruleika Draumalandsins.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal