Skiljið svaladyrnar eftir opnar

Hef verið ósköp meyr undanfarið. Það er nú reyndar ekki það versta. Ágætt að tilfinningalífið bæri stundum á sér. Sendi mann út á rúmsjó í leit að fögrum beinum. Annars segir Lorca allt það sem vert er að segja: Ef ég dey, þá skiljið svaladyrnar opnar.

En aukreitis við orð Lorca þá minnist ég hennar elsku Bjarkar hér:


Björk Líndal, 4. júní 1950 – 9. mars 2013

Gangstéttin við Holtsgötu og árið er 1993. Ég er 18 ára og líklega er þetta að hausti. Björk vindur sér að mér nokkuð hvöss til augna tekur þéttingsfast í hönd mína, kynnir sig og bætir svo við: „Við eigum nú eftir að kynnast.“ Ég er hálfsmeyk og stíg eitt skref afturábak.

Björk var mér alltaf mikil ráðgáta. Hún var mögnuð kona og ólík öllum öðrum manneskjum sem ég hef kynnst síðast liðin tuttugu ár. Alþýðleg heimskona, gáfuð, sterk, full af réttlætiskennd, örlát, traust, skemmtileg og húmórísk með eindæmum. Svo bar hún með sér þessa fjarlægð og sársauka innra með sér sem hún yrti aldrei. Björk var sílesandi og þegar kom að bókmenntum og heimsmálum kom maður aldrei að tómum kofanum. Við kynntumst eins og hún vissi, tengdumst fjölskylduböndum og urðum góðar vinkonur. Hún var amma Evu, dóttur minnar. Kallaði mig ávallt tengdadóttur þrátt fyrir að ég hefði í raun aðeins verið tengdadóttir hennar í fimm ár fyrir langalöngu. En Björk sagði: „Hva, við vorum ekki að skilja, er það? “ – Þetta er mjög lýsandi fyrir Björk. Við erum öll ein stór fjölskylda í þessu lífi.

Björk bjó fimmtán ár í Grikklandi og mér hefur alltaf fundist Grikkland vera hennar heimastaður. Í síðasta sinn sem ég hitti hana var hún aðallega að velta því fyrir sér hvað hún gæti gert fyrir mig og stelpurnar mínar. Útvega mér húsnæði á Grikklandi og redda einhverjum til að sækja mig á flugvöllinn. „Við reddum þessu bara.“ Af líknardeildinni fór ég að sjálfsögðu heim með heilandi krem sem hún gaf mér. Þannig var Björk. Börn hennar Grímur og Begga hafa til að bera þetta sama sérstaka örlæti.

Breyskan klett kýs ég að kalla hina miklu grísku Björk. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast svo víðsýnni og merkilegri manneskju. Ég trúði því að hún myndi lifa allt af, því hún var ein af þeim ósigrandi og hafði gengið margslungin veg. Ég á margar góðar minningar um Björk bæði á Grikklandi og á Íslandi. Ein minning er mjög minnisstæð. Hún hefur þá nýgreinst með krabbamein og er á Landsspítalanum. Við röltum okkur með súrefniskútinn niður í lyftunni og út starfsmannainnganginn í smók. Ég er uggandi um hana en hún stendur þar kankvís tekur upp rettuna og segir með sínu skoplega æðruleysi að það sé of seint að hætta að reykja úr þessu, þeir geti ekki bannað henni það. Sólin skín á hana með sígarettuna logandi í munnvikinu og hún er hin rólegasta yfir veröldinni.

Takk elsku Björk mín fyrir gjafir þínar. Ég sé þig fyrir mér sitja í friðsælum skugganum undir sólhlífinni, sólbrúna og fallega með sígarettuna logandi og þykkan doðrant í kjöltunni. Þetta er líklegast fantasía sem þú ert niðursokkin í. Svo líturðu upp sposk á svip og gantast að þessu öllu saman.

Minning ömmu Bjarkar mun lifa.

Kærar samúðarkveðjur til Beggu langömmu og Einars, Eddu Báru, kæra Gríms og Helgu Völu, yndis Beggu, Systu vinkonu og allrar fjölskyldunnar.
Soffía Bjarnadóttir



Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu þann 15. mars sama dag og útför Bjarkar Líndal fór fram frá Dómkirkjunni. Sólin skein inn í kirkjuna og KK söng í hennar anda. Mjög falleg stund. Björk var síðan lögð til sinnar hinstu hvílu hjá ömmu sinni og afa á Raufarhöfn, laugardaginn 16. mars 2013.
Blessuð sé minning hennar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal