Himnur sjálfsins: Um Holy Motors eftir Leos Carax


Himnur sjálfsins:
Um Holy Motors eftir Leos Carax

Leos Carax er anagram af nafninu Alex Oscar (Alexandre Oscar Dupont). Þetta sagði veraldarvefurinn mér og þótti mér það merkilegt því aðalsöguhetja kvikmyndarinnar Holy Motors heitir einmitt Oscar, sem reynist marglaga maður. Það sem maður telur kjarna hans reynist ávallt himna utan um annan mögulegan kjarna. Vissulega gæti Oscar þessi einnig vísað til kvikmyndaverðlauna Ameríkunnar, maskínunnar sem glatt hefur margan karlinn og konuna en höfundarvísunin er enn skemmtilegri. Oscar í Holy Motors tekur við handritum í hvítri limmósínu á ferð og stígur inn  í nýtt og nýtt hlutverk. Það er hans líf (og kannski hans dauði). Mæri veruleika og skáldskapar eru misþykk, þunn, það er ekki ný umræða. Þau geta verið sem gagnsæ himna eða jafnvel steyptur múr hins ómögulega. Þessum mörkum er afneitað að einhverju leyti í veröld Oscars, en þó ekki algjörlega. Sama má segja um frásagnarformið, því er hafnað á sama tíma og frásagnarlist er hafin upp til skýja.

Holy Motors vakti mikla athygli á Cannes í fyrra en ég fór í Bíó Paradís í byrjun febrúar að sjá hana. En hvað er svona stórmerkilegt við þessa kvikmynd? Frásögnin, efniviðurinn, handritið, leikurinn, sýnin á frásagnalistir nútímans, jafnvel framtíðar. Í viðtali í Guardian segir franski leikstjórinn Carax að það sé erfitt að segja til um það fyrir hvern hann framleiði kvikmyndir, ef einhvern. Fyrir hvern er listin? Hann bætir því við að kannski megi segja að hann skapi kvikmyndir fyrir dáið fólk, fyrir dauðann sjálfan en sýni þær lifandi fólki. Tungumál kvikmyndarinnar býr á enda veraldar. Hin hlið lífsins. Í því tungumáli erum við ávallt brátt á enda. Sköpunarverkið verður ríkara en sjálft lífið. Sú sköpun sem býr okkur og veröldina til úr efnivið sínum. Sjálft verkið, Holy Motors, vísar eilíflega í sjálft sig, bendir á rammann utan um kvikmyndina, rammann utan um okkur sjálf frá upphafi til enda. Í upphafi myndarinnar gengur karlmaður, ef til vill höfundurinn, á náttfötum í undarlegu rými og með áföstum járnfingri opnar hann veggfóðraðan vegg og gengur inn í kvikmyndasal þar sem áhorfendur sofa og svartur hundur röltir slefandi um á milli áhorfendabekkja. Oscar, aðalsöguhetjan, ferðast um í ólíkum kvikmyndastílum og tilvist hans býr yfir glæpasögu, sýndarveru, tónlistarmynd, söngleik og fjölskyldudrama svo dæmi séu tekin. Hann er ríkur, fátækur, ungur, gamall, undir yfirborðinu, yfir því, ýmist að deyja eða að lifa af. Kvikmyndin er marglaga eins og Oscar sjálfur og stærri en umræðan gæti gefið til kynna. Maður vill varla snerta á Holy Motors heldur leyfa henni að vera því hún er bæði fegurðin og illskan í mér og þér. Hún er hin djöfullega þrenning sem samanstendur af markaði, listaverkum og miðlun. Allt ofið saman í lýrískan texta fyrir sjálfið. Markaðurinn er á sama tíma áhorfendur, leikendur, fjölmiðlar sem renna saman í eitt. Síðan er það tæknin, vélarnar, tölvurnar sem hvíta farartækið í Holy Motors er tákn fyrir. Síðast en ekki síst heilagur kjarninn ef hann finnst sem er listin, frásögnin, framleiðslan, verkið, útkoman sem er aldrei endanleg. Og allt er þetta sú samsuða veruleikans sem við búum í og vísar í okkur sjálf sem neytendur okkar eigin sjálfs. Við, elskandi mannæturnar, étum okkur sjálf upp af þrá eftir heilagri fegurð. Þessi lýríska leið er kannski eina leiðin til að lifa.

Kvikmyndin gerist á einum degi, frá morgni til miðnættis. Einn dagur, brot úr mörgum heimum. Í lokaatriði myndarinnar er komið miðnætti og bílstjórinn Celine ekur hvítu leigubifreiðinni inn í bílageymslu áður en hún heldur heim með andlitslausa grímu. Limmósínurnar, hvítar sem svartar eru eftir og ræða þar saman. Sjálfri fannst mér samtali bifreiðanna ofaukið, þótt það undirstriki ramma verksins og að það taki ávallt eitthvað nýtt við af hinu gamla. „Líklega var ég að reyna að útskýra og sýna reynsluna af því að lifa á tímum internets,“ segir Carax. „Hin ólíku hlutverk tilvistarinnar. Þreytan yfir því að vera við sjálf. Við verðum öll þreytt af og til af því að vera við sjálf. Lausnin er að enduruppgötva, endurskapa okkur sjálf. En hvernig gerum við það og hver er fórnin?“
Oscar, sem Denis Lavant leikur af miklu listfengi, er lúinn og hann er spurður hvað það sé sem fái hann til að halda áfram þrátt fyrir þreytuna. Hann segir það vera það sama og fékk hann til að byrja í upphafi: „The beauty of the act.“ Holy Motors er ekki einungis óður til kvikmyndalistarinnar heldur einnig melankólískur óður til lífs og fegurðar. Enn erum við í árdaga tímatals á vef veraldarinnar. Það er ljóst að frásögnin heldur áfram þó að tjaldið falli.

Reykjavík, 7. febrúar 2013
Soffía Bjarnadóttir

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal