The Substance er meistaralega gerður hryllingur frá Coralie Fargeat sem er bæði leikstjóri og handritshöfundur. Ég var búin að hlakka til að sjá myndina og bjóst við að það yrðu fáir í bíó á mánudagskvöldi í leiðinlegu veðri og myndin búin að vera um nokkurt skeið í sýningum. Ég elska sko að vera ein í bíói. En nei, nei það var mjög gleðilegt að sjá allt þetta fólk í Bíó Paradís. Við Þula fengum okkur kók og popp og helltum strax heilu glasi af gosi niður á gólfið í sætaröðinni okkar. Þetta slímuga sæta gos sem rann um gólfið varð mjög einkennandi fyrir kvikmyndina. Þegar myndin var búin hafði gosið gufað upp en eftir var ósýnilegt klístur.
Elisabeth Sparkle hin fimmtuga sykursæta stjarna í fitness og kvikmyndabransanum þar sem útlits- og æskudýrkun er allsráðandi, endar einmitt sem klístur á gólfi og hverfur að lokum endanlega.
Framleiðandinn Harry sem minnir óneitanlega á Harry Weinstein skiptir þessari „gömlu konu“ út fyrir nýja og unga útgáfu. Í gegnum alla kvikmyndina hugsaði ég: Hversu mikið er hægt að hata sjálfan sig? Mjög mikið, já, það er vissulega hægt og hættulegt. Elisabeth fær efnið í hendur eftir krókaleiðum líkt og hún sé að kaupa dóp - efni sem umbreytir og gefur henni unga útgáfu af henni sjálfri með sjö daga millibili. Þess á milli þarf hún að vera í sínu gamla hulstri. Þetta fer að sjálfsögðu allt úr böndunum.
Sterkasta upplifun myndarinnar er hið sjónræna, tekur sjóngáfuna á næsta stig. Litir, leikmynd, líkaminn, kvikmyndataka, klipping. Ýktur leikstíllinn passar mjög vel við sterka skynjun frá öllum umbúðum verksins. Leikurinn er frábær hjá Demi More sem Elisabeth og Margaret Qualley er sömuleiðis einstaklega góð sem hliðarsjálfið Sue. Hin ógeðfellda karlremba og ímynd kvikmyndabransans er einnig skemmtilega leikinn af Dennis Quaid. Það er sér í lagi frábærlega castað í hlutverkin og persónurnar eru tákn fyrir stærra samhengi.
Þessi mynd er annsi mögnuð og flott en ég varð samt fyrir einhverjum vonbrigðum. Er enn að hugsa hvað það er. Hún náði mér ekki alla leið. Hún er fyndin og sár. Sársaukinn er meira í maganum heldur en hjartanu, í holdinu auðvitað. En líkami og hugur er eitt. Eða hvað? Það er allt vel gert en slagkrafturinn hverfur í lokin. The Substance minnti mig einna helst á hina hreint svakalegu Requiem for a dream. Kvikmyndataka og klipping og ummyndun fólks. Hljóðeffektar eru einnig áhrifamiklir með sínu slímuga sogi og ekkói. Útlitsdýrkunin tekur á sig samskonar mynd og fíknivandi gerir og Efninu er sprautað í æð og ummyndar manneskjuna. Örvænting persónunnar er slík að hún er tilbúin að gera hvað sem er fyrir hamskiptin/vímuna og fórnarkostnaðurinn er ekki aftur tekinn, endanlegur eins og í sálumessunni. Hún hefur þó ekki jafn afgerandi áhrif á sálarlíf áhorfenda enda er þetta svört kómedía og líkamshryllingurinn fer alla leið. Góð sem slík. Án þess að ljóstra of miklu uppi þá minnir kvikmyndin mig einnig á feminísku vampírumyndina The Suspiria frá 1977 sem var endurgerð 2018. En það eru margar tilvísanir úr kvikmyndasögunni og rauður gangur kvikmyndaversins verður eins og hótelið í Shining - vísar einhvern veginn í blóðbað og frekari hrylling sem koma skal. Lynch og Cronenberg kvikmyndir eru að sjálfsögðu á sveimi, Fílamaðurinn og fleira. Á þann hátt verður þetta óður til kvikmynda og um leið ádeila á kvikmyndabransann. Auðvitað ádeila á allt, okkur sjálf, hégóma og æskudýrkun, ótta við að eldast, það er hið augljósa. Við elskum kvikmyndir, bæði fæðumst í þeim og deyjum.
Baðherbergið í The Substance og senur þar fannst mér mjög vel heppnaðar, klínískt og kalt með hvítum flísum og spegli þar sem umbreytingarnar eiga sér stað og endurtekin uppvakning holdsins. Myrkt hliðarherbergið það sem við viljum fela.
Það er unun að horfa á svo vel gerða mynd, listaverk sem er líkami og þar með ólíkindatól. Fín ádeila en ekki eins ögrandi og ætla mætti. Tvöfalt sjálf og tveir líkamar í einni manneskju vekja hugsun um hina ólíku parta okkar sem takast á (já og jafnvel mörg sjálf og margfaldir líkamar). Sú eldri fer að hata þá yngri, og sú yngri að hata þá eldri. Mundu að þið eruð ein og sama manneskjan - eru endurtekin fyrirmæli við notkun á EFNINU. Þetta hættulega efni erum við sjálf.
Ummæli