Ummyndanir

Það er alveg heilmikið af bókum sem mig langar í núna þessa vertíð. Ber þá fyrst og fremst að nefna þýðingu Kristjáns Árnasonar á stórvirki Óvids - Metamorphoses - Ummyndanir. Þvílíkur goðsagna- og skáldskaparbrunnur. Við þurfum næstum ekkert meir.
Verkið er skrifað á árunum 1. - 8. e. Kr. Það er í 15 bókum og skrifað í hexametri en þýðingin er hins vegar ekki í bundnu máli.
Ég vissi fyrir margt löngu að Kristján væri að þýða verkið - fékk einhverju sinni að nýta lítið brot af þýðingu - þá var heitið Hambrigði. Ljóðrænt og glæsilegt. Ummyndanir eru þó nær merkingarlega séð þar sem ekki eru það einungis hamskipti sem eiga sér stað heldur einnig aðrar breytingar og ummyndanir, eins og hjá andanum og ekki síst röddum og tungumáli sem ýmist hverfur eða verður eitt eftir að hamurinn hefur tekið á sig nýja mynd eða jafnvel horfið.
Í Eimreiðinni fyrir langalöngu voru þýðingarbrot úr verkinu, Kristján er því búinn að vera með þessa þýðingu í vinnslu allt sitt líf ásamt öllu öðru sem hann hefur gert.
Hann hefur skilað stórbrotnu ævistarfi minn kæri og góði kennari Kristján. Gáfurnar drjúpa auðmjúkar yfir verkið.

Já - ég mæli því eindregið með Ummyndunum eftir Ovidius í þýðingu Kristjáns Árnasonar.

Af öðrum bókum,...

síðar

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal