Hlutur forseta Íslands og siðferðileg ábyrgð

Ég held ég muni endanlega hætta að nenna þessu landi ef fólk hér með kosningarétt tekur upp á því að kjósa sama forsetann yfir sig  næstu fjögur árin. 20 ár á valdastóli? Hver hefur gott af því? Fyrir utan það að hafa verið arfaslæmur forseti síðast liðin ár.

Helst myndi ég vilja leggja þetta blessaða embætti niður. Jarða það djúpt í jörðu.

En hér eru nokkur orð úr Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um hlut forseta Íslands, summsé Ólafs Ragnars Grímssonar, í falli bankanna 2008:

"Hann [ÓRG] þáði margsinnis boð útrásarfyrirtækja um að vera við opnun nýrra útibúa eða höfuðstöðva erlendis, flutti erindi á viðskiptaþingum sem skipulögð voru af bönkunum og skrifaði fjölda bréfa í þágu fyritækja og einstaklinga til erlendra viðskiptamanna eða forystumanna þjóða. Þótt forsetinn greiði almennt fyrir íslensku viðskiptalífi, samrýmist það illa hlutverki þjóðhöfðingja að hann gangi beinlínis erinda tiltekinna fyrirtækja eða einstakra fjárfesta.
Útrásarmenn urðu tíðir gestir í boðum á Bessastöðum og jafnvel voru skipulögð sérstök boð fyrir þá í þágu viðskipta þeirra. Forsetinn varð mjög áberandi sem boðberi útrásarinnar."(bls. 170)

"Þegar rauðu ljósin tóku að blikka árið 2006 og svo af auknum krafti 2007 og í upphafi árs 2008 var forsetinn einn þeirra sem taldi gagnrýni á íslenskt viðskiptalíf og hættumerkin sem bent var á orðum aukin, Íslendingar yrðu að kynna málstað sinn betur, endurtók hann margsinnis og lagði áfram sitt af mörkum í ferðum og ræðum í þágu útrásarinnar." (bls. 170)

"Í heimsókninni til Rússlands [í apríl 2002] kynntist forsetinn Björgólfi Thor Björgólfssyni sem átti í miklum viðskiptum þar og notaði hann þá tækifærið og kynnti Björgólf fyrir rússneskum ráðamönnum." (bls. 171)

Slíkir menn eru athafnaskáld - segir ÓRG um útrásarvíkingana í ræðu í Harvardháskóla 20. maí 2002:

"Orðræða forsetans var ákaflega karlmiðuð, vísað var til sjómanna og bænda, athafnaanda, frumkvöðulsvilja, framtakssemi og vinnusemi dásömuð. Allt eru þetta eiginleikar sem tengdir hafa verið sérstaklega við karlmennsku. Forsetinn taldi vinnumenningu innan fjármálafyrirtækja til fyrirmyndar en spyrja má hversu fjölskylduvænt það vinnuumhverfi var. Vinnuálag var gífurlegt og vinnutími langur um leið og laun voru árangurstengd og þeir umsvifalaust látnir víkja sem ekki þóttu standa sig nógu vel, hvað þá ef þeir voru á annarri skoðun en þeir sem stýrðu fyrirtækjunum." (bls. 172)

Í ræðu við opnun höfuðstöðva Avion Group í Evrópu í febrúar 2005 segist forseti "hafa tekið með sér hóp af ungum djörfum, skapandi og hungruðum fagmönnum sem byggðu á reynslu (m.a. frá Atlanta-flugfélaginu)." (bls. 173) "Í þessari ræðu sagði forsetinn við þá Breta sem þarna voru: "You ain´t  seen nothing yet," og átti þá við sókn íslenskra athafnamanna út í heimi." (bls. 173).

"Eins og áður segir hófst samstarf forsetans við bankamennina um síðustu aldamót, einkum þó Sigurð Einarsson stjórnarformann í Kaupþingi: "Frá árinu 2000 hefur Ólafur Ragnar unnið með Sigurði Einarssyni að mörgum málum, bæði í þágu bankans og annarra málefna. Má telja Sigurð meðal helstu samstarfsmanna forsetans á síðari árum." (bls. 174)

"Forseti Íslands var boðið til Kína og hann fór í sína fyrstu Kínaför sem forseti árið 2005. Um hundrað manns voru  með í för, þar á meðal allir helstu aðalleikararnir í útrásinni, frá fjárfestunum Björgólfi Thor Björgólfssyni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Hannesi Smárasyni til bankastjóranna Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurjóns Þ. Árnasonar. Forsetinn fór aftur til Kína árið 2007, að þessu sinni í einkaþotu og var flugið kostað af Glitni. Ferðin var farin í þágu athafnaskáldanna og var forsetinn m.a. viðstaddur opnun kæligeymslu í eigu Eimskips." (bls. 175)

Forsetinn þjónaði öllum stóru bönkunum og var viðstaddur fjölda opnanna á útibúum Glitnis, Kaupþings, Landsbankans - og hélt hann ræður um yfirburði Íslendinga í viðskiptalífinu. (bls. 175)

Ólafur skrifaði fjölda bréfa í þágu vinar síns Sigurðar Einarssonar.
Hann rak áróður fyrir Actavis.
Hann hélt kvöldverð fyrir seljendur norskra banka sem Glitnir var að kaupa. (bls. 176-177)

"Árið 2005 var samningur Eimskips við aðila í Kína undirritaður á Bessastöðum og vakti það nokkrar umræður."  - Athöfnin þótti ekki við hæfi forsetaembættisins. (bls. 177)

"Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli." (bls. 178)

"Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli. Í ljósi sögunnar hefði þurft mun meiri aga og reglufestu við ákvarðanatöku, hófsemi í framkvæmdagleðinni, reglur um skráningu fundargerða sem og óæskileg tengsl milli einstaklinga. Þrátt fyrir kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja." (bls. 178)

"Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra." (bls. 178)

(Rannsóknarnefnd Alþingis: Viðauki 1 - Siðferði og starfshættir í tengslum við fall bankanna 2008)


En kannski er þessari þjóð ekki viðbjargandi. Kannski á hún það skilið að hafa karlmiðaðan skarf í tugi ára á valdastóli, karl sem hélt ræður og boð, skrifaði bréf og hélt almennt á lofti orðræðu í þágu spilltra peningaafla.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal