Í dag langar mig svoldið að hverfa. Stundum vakna ég með þessa tilfinningu og það er svo magnað að hverfistilfinningin spyr ekkert hvaða dagur er. Hún bara mætir og hugsar allt í hvarf. Ég nota þakklæti sem vopn á hana og það kemur nú fyrir að það dugar svona langleiðina þá fer hún sjálf í hvarf eða lætur í það minnsta lítið fyrir sér fara. Í dag væri kjörið að fara í kirkju eða á myndlistarsýningu. Beita hverfistilfinningunni óvæntum brögðum. Hún er hávær og lætur illa, berst um á hæl og hnakka fjandakornið. En svo man ég eftir því að maður á víst ekkert að berjast við hvarfið frekar en ástina eða jafnvel óttann. Viðurkenna og taka í taumana. Ganga inn í hvarfið og skoða mig um, laga te eða baka jólaköku í hvarfinu. Hverf ég þá eða breytist tilfinningin í andhverfu sína. Ég strýk melankólíunni um feld sinn og segi henni að þrátt fyrir allt sé hún falleg á sinn dapurlega hátt.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal