Lífsins þukl - nokkur orð um Svar við bréfi Helgu e. Bergsvein Birgisson

Því maður á að geta þess sem gott er þá hristi ég fram nokkur orð um þessa góðu og mjög svo vel stílfærðu bók Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson. Það er nýtt ár og í einu ljúfu matarboðinu undir tónleikahaldi litlu manneskjanna gleypti þessi saga mig í einum bita sem ég væri lítið lamb eða nýorpinn lundarungi er þráir ekkert nema að forvitnast meira um lífið fyrir utan skurnina. Ljúfsár, sniðug og falleg er hún þessi einfalda djúphugða saga með öllum sínum skemmtilegu orðum sem gera lífið stærra.
Í þessari nóvellu er að finna veruleika og óveruleika í bland við hátimbraða rómantíkina sem er reykt í gegnum orðfærið eins og gert er við hana Sigríði gömlu sem tekur upp á því að drepast á níræðis aldri um hávetur. Þar sem ekki var hægt að grafa eitt né neitt í frosna moldina var tekið upp á því að leggja hana í sérsmíðaða grind yfir þverbitana í reykingarskúrnum og vel hlúð að holdinu yfir veturinn.”Ég man að ég hugsaði að þessa aðferð ætti að gera að séríslenskum útfararsið, svona meðan menn væru í sárum að syrgja ástvini. Hvar reykurinn hjálpaði tárunum að flóa.” (44) Þótti jarðarförin ilma sérstaklega vel í minningunni. Þessi litla saga er að sjálfsögðu til hliðar við meginmál sjálfrar sögunnar en er svo ótrúlega fallega skemmtilega fyndin eins og verkið í heild sinni – eða hvernig maður nú getur orðað það öðruvísi. Það er Bjarni bóndi á Kolkustöðum sem á orðið og er sagan eins og titillinn ber með sér svar við bréfi frá Helgu sem hann elskaði og elskar enn. Hann lýsir kenndum sínum og hugðum til Helgu sem bjó mestan part lífs hans á næsta bæ. Það er komið að lífslokum hjá hinum gamla bónda sem hefur ávallt hugsað með hjartanu eins og hann sjálfur kemst að orði. Bréf Bjarna til Helgu er ástarjátning af heitustu gerð en færir lesanda á sama tíma skáldskaparleg sannindi um alþýðu og sveitamenningu sem var, með miklum sagnastíl.
Val manneskjunnar er rauður þráður í gegnum söguna og einmitt sú spurning hvort valið sé raunverulega til staðar. Eða eins og Bjarni segir í fullvissu sinni um það hver hann sjálfur sé, en á sama tíma í stórkostlegum efasemdum um sitt eigið lífsins val:

"Kærleikurinn er líka í þessu lífi sem ég hef lifað hér í sveitinni. Og þegar ég valdi þetta líf og fylgdi því og sýtti það ekki, þá lærði ég að maður á að standa við ákvörðun sína, hlúa að henni og hvika ekki frá henni – það er tjáning kærleikans. Hér undir Ljósvallarhlíð varð ég að vera. Ég hafði ekkert val.
Valið var þitt.
Valið er þitt.
Og ég er þinn.
Ennþá." (82)

Sagan er svo léttleikandi skemmtileg og á sama tíma þungbær, sorgleg og full af nagandi sársauka. Sá kallast góður skrifari sem getur fléttað slíku saman á auðmjúkan hátt eins og einmitt hver manneskja er sköpuð úr einhverju sem við köllum hold og andi. Ég leyfi mér hér að segja of mikið um söguna, en lesandi verður hálf meyr að komast að því að játningin kom of seint, hún var í raun syndaaflausn inn í eilífðina þó gamli bóndinn segist aldrei hafa verið að nudda sér upp við Guð – kærleikurinn var hans almætti.

Takk fyrir mig.

3. janúar 2011 - SB

Ummæli

Því maður á að geta þess sem gott er þá hristi ég fram nokkur orð um þessa góðu og mjög svo vel stílfærðu bók Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson
Bíbí West sagði…
já og takk fyrir það ljúfan. Þú kannt svo sannarleg á þau -orðin - alveg sjálf!
Fía Fender sagði…
Þakka þér fyrir Bíbí mín - fallegt af þér.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal