bæलदर væन्तिंगर हौस्त्सिंस


Þá var komið haust. Allt var á sínum stað. Kirkjugarðurinn, bókasafnið, háskólinn og laufin svona klístruð eins og gömul hugsun sem hefur þjónað sínum tilgangi. Haustið hætti að vera skáldskapur. Steig út úr sögunni sinni og fór að hjóla í roki og rigningu. Síðan var beðið.

Biðin ríghélt í eitthvað þarna inni í líkamanum. Líklega var það ég sem sat þarna inni í líkamanum. Kannaðist ekkert við þessa fingur og þessi brjóst og húðina. Alltaf í útlöndum. "Hingað hef ég aldrei komið áður" segir maður bara við æðarnar sínar. Horfa svo í augun á ókunnugum og finna hvað það er erfitt að vera ekki í sjálfum sér. Vera bara titrandi augasteinn í roki og rigningu með líkama fullan af gömlum hugsunum. Ekki að gamlar hugsanir séu neitt slæmar en þær eru bara svo rakar og slepjulegar.

Haustið hefur skilið eftir sig blóðug för á hálsinum á mér. Þetta haust eins og hin haustin sem þyrstir í ímyndun, lifandi steina, nál og tvinna og bútasaumaða ást með rúgbrauði og plokkfiski.

En allt var bara á sínum stað. Dauðinn á sínum stað og lífið á öðrum stað.

Milli klukkan fimm og sjö er hvorki dagur né ekki dagur. En bráðum endurfæðist veturinn og myrkrið fer í fínan kjól með glitrandi palíettum á.

Gott að vita hvernig þetta allt var og er. Bældar væntingar haustsins dvelja enn í klístruðum rauðum laufum.

Ummæli

krumma sagði…
loksins loksins skrifar konan...og maður tengir, maður tengir sko alveg
Fía Fender sagði…
og ég tengi við þig ljúfan mín

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal