Ég hitti góðkunningjakonu mína eða betra væri líklegast að segja bara vinkonu í veislu um daginn. Þetta er mjög falleg og sjarmerandi kona og hún hefur alla tíð verið það. Ég hafði ekki hitt hana mánuðum saman og hún leit svo ljómandi vel út. Bjó yfir stóískri ró, fegurð, visku og já hún hafði grennst þessi lifandis ósköp. Hennar jafnvægis- og fegrunarráð voru: sofa og borða og sofa. Hún náði loksins að hvíla sig í nokkra mánuði eftir að hafa sofið illa árum saman. Hún hætti í vinnunni og um tíma var þetta það eina sem hún gerði, að sofa. Svo vaknaði hún svona aðeins til að næra sig inn á milli djúpra blunda. Með þetta í huga fór ég inn í þessa fallegu helgi. Átti guðdómlegan föstudag fram á kvöld sem innihélt flest það sem dagar eiga að bjóða upp á: ást, sköpun, fegurð, hreyfingu, vinnu, drykkju, næringu... og síðan svefn. Ég blundaði frá föstudagskveldi og til klukkan tíu á sunnudagsmorgni. Forgangsröðin hefur ekki alltaf verið sú besta eða eins og önnur góð viskuvinkona orðar það: þegar maður setur sjálfan sig til hliðar. Konur gera meira af því en karlmenn. Ég þoli ekki svona konur versus karlar fullyrðingar. En ég segi það samt og skrifa: konur setja sjálfan sig meira til hliðar en karlmenn. Ég ætla ekki í neina söguskoðun hér hvað þetta varðar. Og ég er klofin þegar kemur að þessu efni að hugsa um sjálfan sig og að hugsa um aðra. Amma mín bjó á Hellisandi og gekk með og fæddi 10 börn í þennan heim. Hún vann í frystihúsinu allan daginn, en fékk að fara aðeins fyrr heim í hádegishléinu til að kveikja á hellunni heima og sjóða það sem í pottinum var. Þetta er auðvitað svakalegt líf og ekki konu bjóðandi en engu að síður fyllist ég lotningu og segi hér upphafna munnmælasögu með stolti af henni ömmu minni. Ég sprett bútasaumuð upp frá þrælkun tímans. Það kemur nú ekki á óvart að hún amma mín var að vinna daginn sem hún dó og sín síðustu orð sagði hún með sinni friðsælu rödd: ég er ekki hrædd. - Hún var líklegast hvíldinni fegin sú gamla. Nú hef ég í laumi dásamað vinnusemina því mér var kennt það og ég á erfitt með að klæða mig úr þeirri hugsun. Enn frekar vil ég þó dásama góðan nætursvefn. Svo verð ég nú að bæta því við að listin að draga andann og horfa á trjákrónur er vanmetin. Sjá ég boða yður frelsi.....

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal