TUNGL - 22. apríl 2016

Kæru vinir tungls

Við erum hér saman komin í bækistöðinni, tunglsjúk að vanda. Aftur erum við stödd á brottfararstað. Hver verður nú fararmátinn og hver flóttaleiðin? Við tæmdum hirslurnar og grófum okkur niður í heita jörð. Mosavaxinn sprettum við aftur fram. Hún kallar okkur út. Hún segir: Ég er full. Sjáðu mig: ég er full af þér. Flöktandi minnir hún á spegla. Hún birtist þér í sporðdreka til að spyrja þig. Þú finnur spurnina eflast um æðarnar. Spurt er: Hvenær er nóg – nóg? Hvenær er hámarkinu náð? Hvenær verður fjallið fullburða? Hún spyr þig og þú endurtekur:

Hún er full

Hún er full

Hún er full

Full í sporðdreka og þú svarar hennar kalli því hún er þitt byggingarefni. Þú verður að rísa og hníga með hennar andardrætti.

Skáldskapur er endurnýjun lifandi tengsla - ákvörðuð af óvissu. Munið það: ákvörðuð af óvissu. Hugurinn, bækistöð, brottfararstaður. Við viljum brenna upp, við viljum vera numin á brott. Og ég endurtek hér orð úr Stefnuyfirlýsingu súrrealista frá árinu 1924:

„Orðið „frelsi“ er það eina sem enn fyllir mig ástríðu. Ég tel það fært um að viðhalda fornum ofstopa mannsins út í hið óendanlega. Það getur eflaust látið eina lögmæta þrá mína rætast. Við verðum að viðurkenna að mitt í allri ógæfunni sem við hljótum í arf er okkur eftirlátið hið æðsta frelsi andans. Það er undir okkur komið að misnota það ekki illilega. Að hneppa ímyndunaraflið í fjötra – jafnvel þótt það sem við höfum gróflega nefnt hamingju væri í húfi – er að afsala sér dreggjum þeirrar réttlætiskenndar sem maður getur fundið dýpst í sjálfum sér. Ímyndunaraflið eitt getur sýnt mér það sem gæti verið og það er nóg til að losa eilítið um hið skelfilega forboð; einnig nóg til þess að ég gefi mig á hennar vald án þess að óttast mistök mín (eins og hægt væri að gera verri mistök).“

Já, kæru vinir, hún er full.

Þið skulið ekki útvega hestvagn eða fley. Látið allt þetta lönd og leið og horfið ekki, heldur leggið aftur augun og breytið um sjóngáfu, vekið þá sem allir hafa, en fáir nota.

Við höfum blótað vetri. Það er komið sumar. Hún er full. Hún er tungl. Einnig nú, þegar dúfur gráta. Og þið spyrjið eflaust: hvernig nálgast ég hana?

Óttist ekki. Þið vitið jú öll svarið.
Það mun birtast ykkur svo skýrt að allir lampar heims verða óþarfir.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal