Mórberjatréð



 Mig hefur dreymt um að klífa mórberjatré frá því ég var lítil stúlka. Ég ímynda mér að ég sitji undir mórberjatré og til mín falli safarík mórber. Síðan klíf ég tréð berjablá og horfi yfir borgina. Þarna kem ég auga á kraftaverkið. Síðhærður karlmaður í hvítum kjól með blómsveig um höfuð kemur ríðandi inn í borgina á asna. Draumar fólks eru vissulega misjafnir. Minningarnar sömuleiðis sem eru hálft í hvoru endurunnar úr draumum og jafnvel martröðum.

Ein minning mín er á þá leið að ég er sjö ára gömul stödd í sumarbústað í Svignaskarði með foreldrum mínum og tveimur bræðrum. Það vill svo skemmtilega til að í næsta bústað eru sjö eldhressar nunnur gestkomandi. Þær valhoppa um hlíðarnar, syngja sálma, maula mórber og hlátrasköllin glymja yfir til okkar fjölskyldunnar sem sitjum og spilum kanasta á meðan við sötrum heitt súkkulaði. Ég get ekki með nokkru móti einbeitt mér að spilamennskunni heldur er ég gjörsamlega bergnumin af hinum guðlegu verum og í guðsótta mínum fylgist ég með hverri hreyfingu heilagleikans í næsta bústað. Um nóttina kemur mér ekki dúr á auga. Konurnar í hvítu og svörtu búningunum eiga hug minn allan og undarlegur ótti  tekur sér bólfestu í barnssálinni sem endar með því að ég krýp skelfingu lostin á kné með spenntar greipar og þyl í sífellu: fyrirgefðu mér góði guð ég ætla ekki að verða nunna ég ætla ekki að verða nunna ég ætla ekki að verða nunna.

Það er ekki alveg ljóst í minningunni hvað það var sem skelfdi barnið svo óskaplega við syngjandi systurnar í Svignaskarði. Gæti hafa verið óttinn við hið óþekkta, tungumálið jafnvel og Guð. Á þessum tíma taldi stúlkan að tunga sín hefði guðlegan mátt. Það sem hún segði myndi raungerast. Hún var því hrædd um að tungumálið tæki völdin og færi að lofa því án hennar vilja að gerast brúður Krists. Ef hún missti út úr sér rangt orð þá væri hún dæmd til ævilangrar klausturvistar.

Lesendum er líklega orðið ljóst að þessi stelpa var óvenju trúrækið barn. Hún var uppfull af guðsótta, dauðaþönkum og meðvirkri gæsku. Þetta sást þó ekki svo gjörla þegar hún skautaði galvösk um tjörnina í Reykjavík, karpaði við ömmu sína yfir rússanum, æfði sund eins og vitlaus væri, keppti í maraþonhlaupum í kristilegum sumarbúðum, stal ólesnum ljóðabókum af bókasafninu eða skipulagði bekkjarkvöld þar sem hún söng Krókódílamanninn hans Megasar í bland við Like a Virgin með Madonnu. Nei hver hefði trúað að undir þessari mergjuðu lífsgleði reyndist guðstrú af því tagi að stúlkan hefði aldrei vogað sér að hugsa eina einustu hugsun án þess að ráðfæra sig fyrst við karlkyns yfirvaldið sem bjó á sama tíma í henni sjálfri sem og utan við hana.

Það var ekki haldið í messu á sunnudögum né á öðrum dögum, hvað þá minnst á heilagan anda á heimilinu. Ég hef því oft velt því fyrir mér hvaðan í ósköpunum slík trúarvissa eða reynsla spretti. Ég hef ekki svarið en hef hugleitt það hvort slík reynsla hafi eitthvað með mátt tungumálsins að gera. – En þessi guðslegi þorsti leiddi stúlkuna að sjálfsögðu á KFUK fundi árum saman og getur hún enn raulað vísurnar. Til að mynda sönginn um tollheimtumanninn Sakkeus, sem var svo fjáður og óhamingjusamur eftir fjárdrátt og önnur brot gegn meðbræðrum og systrum sínum:

Hann Sakkeus var oftast einn
þó auðugari væri ei neinn,
menn sögð´ ann vera vondan mann og vini átti enga hann
og vini átti enga hann.

Er Jesú kom til Jeríkó
hann jafnskjótt fór af stað og hló
því Krist hann gæti kannski séð ef klifi hann mórberjatréð
ef klifi hann mórberjatréð.

Í minni mínu, draumum sem martröðum lúrir enn KFUK-stúlka sem langar til að klífa mórberjatré til að sjá Jesú eins og tollheimtumaðurinn Sakkeus gerði. Að sjálfsögðu iðraðist Sakkeus í dæmisögunni í Lúkasarguðspjalli og gaf alla peningana sína eftir að hann hitti Jesú í Jeríkóborg. Það sem Sakkeus hafði stolið frá Palestínumönnum gaf hann fjórfalt til baka. Honum var ljóst að orðin ein nægðu ekki til að bæta fyrir gjörðir sínar. Með verkum sínum sýndi hann að hann var breyttur maður.

Já, mig hefur lengi dreymt um að klífa mórberjatréð og líta kraftaverkið augum. Þegar ég verð komin upp á trjágrein mun ég ekki sjá síðhærðan kærleiksríkan karlmann ríðandi á asna né valhoppandi hressar systur í berjalandi. Nei. Ég sé sólina slúta letilega niður af festingunni þar til hún hverfur auðmjúk í hafið.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Simplу want to say your article is as astonishing.
The сlarity in yοur роst is just excellent and i could assume you are an eхpert on
this subject. Fine wіth yοur ρermission allow me
to grаb your RSS feеd to keeρ updated
with fогthcoming post. Thanks a million аnd pleasе cοntіnue
the enjoуable work.

Also νisit my blog; tens unit hire

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal