Dropinn holar steininn: ég og þú og kolefnissporin okkar
Hugtakið kolefnisfótspor
hefur ljóðrænan dökkan blæ. Hljómar í huga mér líkt og ský í buxum, þó skuggalegri mynd birtist af fótsporum í lofthjúp. Sjálf
geng ég yfirleitt í kjól og nota skó númer 36.
Ég veit hvað fótspor eru og ég hef óljósa
hugmynd um kolefni. Slík fótspor eru því þau mörk sem mennirnir setja á
loftslagið. Eða hvað? Það góða við að vera haldinn orðaþráhyggju er það að orð
eins og kolefnisfótspor renna ekki
svo glatt úr minni. Frá því ég heyrði orðið fyrst fyrir nokkrum árum síðan þá
hefur hugtakið hangið sem svartholsljóð í hausnum á mér við hvert fótmál, hvert
götumál, hverri ferð til kaupmannsins, hverri einustu ferð minni með rusl út í
tunnu. Með hverri bílferð, sorpuferð, hvað þá flugferð. Ég sé fyrir mér
drulluskítug fótspor mín númer 36 bólgin af eyðingu jarðar. Skuggar mínir jafnt
um loft og láð. Og mín melankólísku spor verða sífellt fleiri og dýpri, stinga
sér líkt og samúræjasverð inn í lofthjúpinn.
Jæja. Og hvað er kolefnisfótspor (e. carbon footprints) og hvað getum við gert til
að sporna við slíkum sporum mannkyns í öllum okkar vanmætti?
Fótsporið eru jú að sjálfsögðu myndlíking fyrir
slæm áhrif sem gróðurhúsalofttegundir hafa og valda hlýnun jarðar. Hugtakið er
því samnefnari á áætluðum heildaráhrifum sem losun koldíoxíðs veldur. Þessi markandi
og eyðileggjandi áhrif eru þau skref sem hver einstaklingur tekur með lífstíl
sínum, sem og hvert og eitt fyrirtæki, hver og ein þjóð, já sú leið sem heimurinn
eða mannkynið í heild sinni er á. Það er ekki að undra að einstaklingurinn með
sín smáu fótspor finni fyrir vanmætti og telji sig jafnvel ekki bera ábyrgð á
lofttegundum. Sjái enga hættu steðja að. En sú afstaða eða öllu heldur afsökun
fyrir doðanum, þessu þokukennda mistri nútímans, stenst ekki.
Hnattræn hlýnun er raunveruleg og meirihluti
loftslagsvísindamanna aðhyllast þá kenningu að aukning gróðurhúsalofttegunda í
lofthjúpnum hafi áhrif á hlýnun jarðar. Meiri hluti þessa sömu vísindamanna,
til að mynda hjá World Metorlogical Organisation og U.S. National Academy of
Sciences eru einnig sammála því að athafnir mannanna séu drífandi afl í þeim breytingum
sem hafa orðið á hitastigi jarðar á síðustu áratugum.
„Fyrir rúmum 100 árum sýndi Svíinn Svante
Arrhenius fram á að aukinn styrkur koldíoxíðs
gæti valdið hlýnun lofthjúpsins, en langur tími leið áður en fólk vaknaði almennt til vitundar um að mannkynið
hefði áhrif á loftslag jarðar með athöfnum sínum.
Árið 1990 kom út fyrsta úttekt Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem færði sterk rök fyrir því að
loftslagsbreytingar af manna völdum ættu sér stað. Fjórða úttektin kom svo út 2007 og þar er tekinn af allur efi:
Loftslagsbreytingar af völdum manna eru
ótvíræðar og munu valda mikilli röskun á komandi áratugum ef ekki er gripið í taumana.“ (Úr skýrslunni
Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra
á Íslandi – gefin út af Umhverfisráðuneytinu árið 2008). Sjá: http://loftslag.is
Gróðurhúsalofttegundir eru margar en sú sem mest
um ræðir er koldíoxíð CO2 og markmiðið ætti að vera að minnka losun þess og
annarra kolefna af mannavöldum. En afleiðingar loftslagsbreytinga hafa verið
gríðarlegar um langt skeið. Engu að síður er lítill áhugi hjá stórum ríkjum að
bregðast af alvöru við þessum vanda sem blasir við. Samspil flókinna
loftslagsbreytinga ógna strandsamfélögum og borgum, fæðuöryggi og vatnsforða,
vistkerfum sjávar og ferskvatna, skóga, háfjallavistkerfa svo eitthvað sé
nefnt. Gróðurhúsaáhrif hafa valdið því um langt skeið að lífríki og ákveðnar
tegundir deyja út.
Það sem er mest um vert er að minnka notkun
eldsneytis og þar með minnka losun koldíoxíðs. Þetta á bæði við í hinu smáa og
stóra samhengi. Allar stærstu losunar þjóðirnar verða að draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda. Mikilvægt er að skipta á milli eldsneytistegunda og nýta
endurnýjanlega orku í meira mæli. Nota farartæki með betri eldsneytisnýtingu og
meiri notkun almenningssamgangna.
Samgöngumál eru því gríðarlega mikilvæg þegar
kemur að umhverfisvernd.
Viðhorf til loftslagsmála eru einkar mikilvæg
til að breytingar geti átt sér stað. Að hver og einn sé meðvitaður neytandi. Til
að mynda að huga að því hvort vörur séu umhverfisvænar með tilliti til losunar
koldíoxíðs. Þar má nefna að minnka notkun á faratækjum. Stærsti vandinn hefur
hlotist af völdum bruna á koli og olíu til framleiðslu á eldsneyti. Mikilvægt
er að hafa kolefnisfótspor í huga í
hvert sinn sem bíll er notaður. Það er hvaða áhrif losun koldíoxíð hefur á
lífríkið og hvernig megi smætta þessi áhrif, draga úr kolefnisfótspori. Einnig er mikilvægt að hafa þetta í huga varðandi
kaup á vörum sem eru fluttar um langan veg til landsins. Velta jafnvel fyrir
sér hvort ekki sé skynsamlegra að kaupa vörur úr nágrenni sínu. Kolefnisfótspor innfluttra matvæla getur verið um 100 sinnum stærra en
fótspor matvæla sem upprunnin eru úr næsta nágrenni. Það er því vert að hafa
sín eigin spor í huga og stíga varlega til jarðar því hver einasta neysla af
öllum toga hefur umtalsverð áhrif á lífríkið til framtíðar.
Ef þú lesandi góður hugsar ekki um kolefnisfótspor þín minnst einu sinni á
dag þá mun ég elta þig uppi á skóm númer 36 og troða því inn í hausinn á þér.
Að mínu mati eru þrjú málefni sem sem skipta sköpum í veröldinni. Málefni sem
verður að taka á og afstöðu til. Það gengur ekki að bera fyrir sig
þekkingarleysi, áhugleysi, vanmætti eða láta á annan hátt sem vandamálin séu
ekki okkar heldur annarra. Það eru málefni er varða misskiptingu auðs í
heiminum, barátta fyrir kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna og síðast en ekki síst
umhverfismál, gróðurhúsaáhrif og þar með talin kolefnisfótspor mín og þín.
Soffía Bjarnadóttir
Upplýsingar m.a. fengnar af eftirfarandi
vefjum:
Ummæli