Ill tunga þjóðerniskenndar
Oft finnst mér allt vera að fara til andskotans.
Ég viðurkenni það hér með. Samt hef ég séð dansandi norðurljós á himni. En þrátt
fyrir slíka fegurð þá er ég hrædd um að ekki einungis litla eyjan í norðri sé
að fara eitthvað enn norðar og síðan niður með fljótinu sem skolar öllu burt
heldur einnig heimurinn allur.
Nýnasistaflokkar
hafa verið að færast í aukana síðustu árin. Sér í lagi eftir fjármálakreppuna 2008
þá virðast slíkar ómannúðlegar öfgastefnur vera að blása eitruðu lofti sínu í segl
víða um Evrópu. Grundvöllur nasismans lá upphaflega í ótta og neyð fólks sem
Hitler nýtti sér eftir fyrri heimsstyrjöld. Hann var síðan lýðræðislega kosinn
1932, en var hins vegar fljótur að afnema lýðræði eftir að hann komst til
valda. Það væri vissulega óskandi að þegar þau Adolf Hitler og Eva Braun hurfu
endanlega niður í neðanjarðarbyrgi sitt í Berlín þann 30. apríl 1945 þá hefði um leið horfið sú alræðishugmyndafræði
sem Hitler hafði haldið á lofti og notað til að réttlæta gengdarlausa illsku og
viðbjóð: hugmyndir um æðri kynstofn og mannhreinsanir. Andúð á gyðingum,
útlendingum, innflytjendum og samkynhneigðum. En því miður var það ekki svo að
slíkt hatur hyrfi með sameiginlegu sjálfsmorði nýgiftra hjónanna, Braun og
Hitlers. Af og til hafa rumskað hugmyndir í hjörðum fólks um veröldina sem
vísa til kynþáttahyggju. Einmitt núna getur uppgangur hópa sem aðhyllast
mannhreinsanir komið af stað bylgju um víða veröld. Vert er að vera vakandi
fyrir þráðum slíkrar öfgastefnu hér á
litlu andskotanseyjunni sem annars staðar þar sem hatur gegn innflytjendum
virðist vera að aukast. Andúð á sígaunum til að mynda hefur tíðkast víða um
Evrópu. Fólk er tilbúið að trúa nær öllu upp á sígaunafjölskyldur. Aftengja sígauna
mennsku sinni því þeir séu vandamál sem þurfi að hreinsa burt úr borgum líkt og
verið sé að ræða um meindýr. Það verður að segjast að útlendingahatur grasserar
einnig á Íslandi undir settlegu yfirborðinu. Þó við séum kannski ekki jafn illa
sett og Þjóðverjar á tímum Hitlers eða Grikkir eftir þeirra efnahagshrun. En á
Grikklandi eykst fylgi Gylltrar dögunar, sem er nýnasistaflokkur. Flokkurinn
komst inn á gríska þingið á síðasta ári og vakti að sjálfsögðu upp mikinn óróa
um gjörvalla Evrópu. Flokksmenn heilsast að fasistasið, tigna föðurlandið eitt
og syngja: talaðu grísku eða þú deyrð.
Í
komandi kosningum á Íslandi er vert að muna hvað slík fasísk þróun þýðir og hversu alvarlegt útlendingahatur er sem
getur meðal annars birst í uppblásnu þjóðarstolti. Kjósendur þurfa að vera á varðbergi
gagnvart áróðri um þjóðerniskennd af ýmsum toga. Bak við slíkan ættjarðarfagurgala
gætu legið þræðir sem við skulum vona að fáir vilji kjósa yfir sig.
Ummæli