Nostalgía í brotsjó

Bókabúðir, bókasöfn og kirkjugarðar eru mínir uppáhaldsstaðir í borgum og bæjum heimsins.(Já svona reyndu að halda andlitinu). Helstu minningar mínar úr æsku eru úr þessu ágæta þríeyki. Sér í lagi er það bókabúðin Iðunn sem staðsett var á horni Öldugötu og Bræðraborgarstígar, Bókasafn Seltjarnarness sem þá var í tónlistarskólanum sem nú telst til heilsugæslunnar, Hólavallakirkjugarður sem hefur til allrar hamingju ekki fengið á sig neina nútíma ásýnd. Að síðustu vil ég nefna kofa úti í Suðurnesi sem telst víst hvorki til bókageymslu né greftrunarstaðar en virðist þó tengjast heimkynnum bóka og dauða á mystískan hátt í gegnum stríð, strandir og sjó með útsýni bæði til Gróttu og Guðs. Reyndar er þessi ágæti kofi orðinn að golfvelli sem passar ekki alveg inn í þessa rómantísku morbid hugmynd um æsku mína sem ég er að reyna að setja hér fram af veikum mætti. Engu að síður eru þessir staðir greyptir í vitund mína (hvað sem sjálfstæðismönnum og gangandi golfíþróttinni líður) og ef ég vakna við minnisleysi á útlensku sjúkrahúsi og þekki ekki eiginmann minn hann Jack lengur þá væri ráð að fara með mig á þessa staði og sjá hvað gerist.

Along the Country Road

Ástæðan fyrir því að ég rifja þessa staði upp er að ég vaknaði upp í nótt eins og margar aðrar góðar nætur og í andvöku leituðu á mig endalausar þreifingar eftir minningum úr æskunni. Minningar eru svo brotakenndar og ímyndunarveikar í eðli sínu að mér líður eins og tómum svikara við að fletta upp í þessu riti hugans sem lýgur mann fullan af ást og bælingu heimsins. Var þetta allt skrifað í fjörusandinn. Þú og þitt stöff. Getur það verið. Hugurinn vill bara muna sögur af sjó og glóðuðu brauði með aldinmauki, flautuleikarar í trjákrónum og dauðir máfar á bögglabera silfurgráa hjólsins sem ég fékk þegar ég var 10 ára. Svo allt í einu birtist mamma hlægjandi með appelsínubörk í kjaftinum eins og hrekkjarvökukerling úr Hlíðunum. Ég verð skíthrædd og get ekki sofið og ímynda mér drauga í hverju herbergi og það eina sem huggar mig er Bessi Bjarnason með sínar sögur á vínyl.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Madrigal